Leita í fréttum mbl.is

Vatnssölukerling fær viðurkenningu heilbrigðisyfirvalda

Nýju lögin um hina svokölluðu "græðara" eru mikil afturför fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Þarna hafa bakdyrnar verið opnaðar inn í kerfið fyrir alls kyns kuklara og skottulækna svo að þeir geti í krafti hefðarinnar stundað sín hjáfræði án þess að þurfa að sýna fram á gagnsemi eða virkni þeirra. Hvernig eiga þessir meintu "græðarar" að stuðla að bættri heilbrigðisþjónustu?

Það er viðeigandi að hómópati taki við fyrsta skírteininu þess efnis að nú stundi hann sitt kukl undir vottun ríkisins. Hómópatía er ein af vinsælustu greinum óhefðbundinna lækninga en rannsóknir hafa ítrekað sýnt að nákvæmlega ekkert er á þeim að græða, sjá ítarlega umfjöllun hér. Þær byggjast einfaldlega á því að gefa fólki vatnssopa við hverju því sem hrjáir það. Nánar tiltekið þynningar af hinum ýmsu efnum eins og brennisteini eða bleki úr blekfiskum en þessar þynningar eru oftast svo útþynntar að varla er eftir ein einasta sameind af upphaflega efninu sem þynnt var út.

Ekki er glæsilegur listinn yfir félögin sem hafa fengið skráningu sem félög "græðara". Þarna má t.d. finna Svæðameðferðarfélag Íslands en meðlimir þess trúa því að fótanudd sem þeir kalla svæðanudd sé allra meina bót. Fleiri nuddfélög eru líka þarna á meðal en þó að nudd geti verið þægilegt og slakandi þá má efast um að allir nuddarar eigi heima innan heilbrigðiskerfisins.

Það er hægt að spyrja sig hvernig farið er að því að velja þá úr sem eiga að teljast til græðara. Mega þeir sem reka illa anda út úr fólki vera með í þessum félagsskap? Ef ekki þá hvers vegna? Hvernig er það metið hvaða skottulækningar eru góðar og gildar og hverjar ekki? Það hefur verið sýnt fram á gagnsleysi smáskammtalækninga með vísindalegum tilraunum en það hefur greinilega ekki dugað til.

Að sumu leiti eru "græðarar" réttnefni á þessum félagsskap. Þeir eiga eftir að græða stórar upphæðir á því fólki sem leitar til þeirra, það er alveg bókað. 


mbl.is Fyrsti græðarinn fær skráningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband