Leita í fréttum mbl.is

Skriðan er farin af stað, vertu með!

Hér þarf ekki að fjölyrða um ástæðurnar fyrir því að ríkiskirkja sé forneskja sem eigi ekki heima í okkar þjóðfélagi. Þessi mikla fækkun talar sínu máli - og hún nálgast á aðeins einu ári gullinn þröskuld fimmþúsund úrsagna, sem þýða fækkun um einn prest á fóðrum hjá ríkissjóði.

Skriðan er farin af stað. Fyrir nokkrum árum fullyrtu gapuxarnir að "90%" landsmanna væru "kristnir" í einhverri óskilgreindri merkingu þess orðs. Þeir eru hættir því. Fljótlega fara þeir að fullyrða að tveir af hverjum þremur séu kristnir. Eftir nokkur ár í viðbót munu þeir segja að annar hver maður sé kristinn. Og þetta verður pínlegra og pínlegra fyrir þá.

Á nokkrum árum skráði trúfélagsleiðréttingarherferð Vantrúar næstum 1400 manns úr ríkiskirkjunni. Það var auðvitað töluverð handavinna, en alls ekki erfið, enda auðvelt að finna fólk sem hafði lengi ætlað að skrá sig úr kirkjunni en ekki komið því í verk. Af þeirri reynslu að dæma er af nógu að taka áður en þessi skriða hættir að renna.

Aldrei hafa eins margir skráð sig úr ríkiskirkjunni á einu ári og nú. Jafnvel þótt hreyfingin yfir til zúista, yfir þúsund manns, væri dregin frá, er fækkunin samt sú næstmesta á einu ári sem við höfum séð.

Ríkiskirkjan er í frjálsu falli. Hún fellur svo hratt að áhugafólki um  samsæriskenningar um 11. september gæti dottið í hug að það hafi verið komið fyrir sprengiefni í henni. Hér eru þó einfaldari skýringar nærtækari: fólk trúir ekki lygasögunum, hefur engan áhuga á starfinu og hefur fengið nóg af hneykslunum.

Þannig að ef þið hafið ekki komið því í verk að skrá ykkur úr ríkiskirkjunni, drífið þá í því. Hér utan kaldra múra hennar er nóg pláss, sólin skín skært og gleðin er við völd.

Árið 2015 var metfækkun í ríkiskirkjunni. Sláum þetta met.

Skráið ykkur úr ríkiskirkjunni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband